Nám, starf og lífiđ / Spurt og svarađ

Alvara lífsins


Spurning:

Ég á í vandamáli á heimilinu, sonur minn er afkaplega klár strákur sem hefur sýnt það að hann getur tæklað nánast allt þegar hann tekst alminnilega á við það. Nú er svo komið að hann er að verða sjálfráða, hann býr heima en er mjög sjálfstæður. Vandamálið er að við höfum að mínu mati of alið drenginn og hann heldur að allt komi upp í hendurnar á honum, það er því miður að mínu mati ennþá í gangi. Hann mætir illa (eða ekki í sum fög) í menntaskóla og er við það að falla í annað sinn (er í raun fallin samkvæmt skólareglum um mætingu). Ég vil setja honum skýr mörk t.d. að vera farin að sofa klukkan eitt á virkum dögum. Mömmu hans finnst ég vera óþarflega strangur, sem gerir málið en verra þar sem hann fær ekki sömu skilaboð frá okkur. Við höfum ýtrekað sest niður með honum og hann lofað hlutum sem hann stendur svo ekki við. Við höfum orðið sammála um að hann taki sér frí í skólanum en hann verði að klára þessa önn og finna sé vinnu. Nú er svo komið að hann hlustar ekki á mig nema ég sé á hálf öskarndi og flest okkar samskipti eru neikvæð. Þetta reynir afskaplega mikið á mig og ég sé ekki fyrir mér að þetta gangi til frambúðar. Ég hef breytt um vinnu til að geta sinnt fjölskyldunni betur og verið meira með þeim, nú finnst mér eins og það skpti varla máli ef ég get ekkert lagt til málanna nema ergelsi og streitu. Mér finnst ég hafa tvo valkosti, annars vegar að hjálpa honum að skilja að hann verður að takast á við lífið (sem ég er að reyna núna) og bera ábyrgð á hlutunum sjálfur. Eða að bara gefa honum meira frelsi og sjá til, þá finnst mér nokkuð öruggt að hann klárar ekki menntaskóla og verður upp á aðra komin alla sína ævi og kennir öðrum um ef illa gengur. Mér finnst báðir þessir möguleikar fela í sér að ég missi samband við hann og bregðist honum í uppeldishlutverkinu. Hvað er til ráða?


Svar:

Sæl

Það er hugsanlegt að þú sért að glíma við vanda sem tengist góðærinu í vissum skilningi. Nú eru breyttir tímar eins og þú veist. Ef við göngum út frá því að freistingar á vinnumarkaði hafi verið helsta ástæða þess að unglingar hurfu frá námi þá er það gjörbreytt núna. Þar af leiðandi verður nám miklu nauðsynlegra bæði til þess að leggja grunn að ævistarfi og til þess að nota tímann vel fram að næstu uppsveiflu. Vonandi skilur sonur þinn þetta, að það sem var meira og minna sjálfsagt "dekur" er það ekki lengur.

Samstaða foreldra verður enn mikilvægari til þess að koma honum í skilning um að það er ekki eins öruggt að honum sé rétt eins mikið upp í hendurnar. Ef hann vill ekki skilja þig, þá er alveg eins líklegt að hann þurfi að reka sig á sjálfur t.d. þegar hann sér að úrvalið af störfum fyrir brotthvarfsnemendur er ekki glæsilegt lengur. (ekki nema þú getir útvegað honum vinnu). Ef hann klárar þessa önn og fer að leita sér að vinnu, þá kemst hann betur að því hvaða möguleika hann hefur. Hins vegar er almennt ráðlegt fyrir unglinga að grípa tækifæri til menntunar frekar en að hætta sér út á yfirfullan vinnumarkað. Vissulega eru líka atvinnutækifæri í kreppunni en þau eru meira fyrir annað hvort nægjusama eða útvalda (gegnum sambönd?).

Mér finnst ég helst geta ráðlagt þér að ræða við konuna þína um samstöðu í þessum síðasta áfanga á uppeldinu. Ef sonurinn vill ekki skilja ykkur, þá er næstbest að hann finni þetta sjálfur með því að láta reyna á eigin möguleika.

Með kveðjum

Jón Sigurður Karlsson
sálfræðingur
www.

 

Til baka


Svör viđ öđrum spurningumPrentvćn útgáfa 

Skođanakönnun

Hefur úlit líkama ţíns mikil áhrif á hvernig ţér líđur međ sjálfa/n ţig ?
Svarmöguleikar

Skráning á póstlista

Tölvupóstfang
Skráđu ţig á póstlista persona.is til ađ fá fréttir og tilkynningar frá okkur í framtíđinni.